Trent Alexander-Arnold hefur verið varaður við því að hann sé ekki með öruggt sæti í byrjunarlið Real Madrid, eftir að hann byrjaði á bekknum í 3-0 sigri liðsins gegn Real Oviedo á sunnudag.
Bæði Alexander-Arnold og Vinícius Júnior voru óvænt ekki í byrjunarliðinu í öðrum leik Real Madrid í La Liga á tímabilinu. Þjálfari liðsins, Xabi Alonso, valdi þess í stað Dani Carvajal sem hægri bakvörð og Rodrygo í framlínuna.
Kylian Mbappé skoraði tvö mörk og Vinícius bætti við þriðja marki liðsins í uppbótartíma eftir að hafa komið inn á í 63. mínútu. Alexander-Arnold fékk aðeins að spila lokamínúturnar, en hann kom inn þegar þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.
Þetta er töluverð breyting frá tíma hans hjá Liverpool, þar sem hann var fastamaður í byrjunarliði félagsins í mörg ár.
Alonso varaði við því eftir leikinn að enginn leikmaður væri öruggur í byrjunarliðinu. „Við erum með meira en 20 leikmenn í hópnum og ég ætla að reyna að fá það besta út úr þeim öllum,“ sagði Alonso eftir leik.
„Stundum geta þeir verið í byrjunarliði og verið mikilvægir, eða komið inn á í fáar mínútur og samt skipt sköpum. Ég hef ekki tekið neinar ákvarðanir fram í tímann. Ég vil að allir finni að þeir skipti máli og séu tilbúnir fyrir næsta leik.“