Nokkuð mikil umræða hefur átt sér stað um áfengissölu á knattspyrnuleikjum á Íslandi, hefur sú hefð skapast á síðustu árum að þeir sem vilja geta fengið sér bjór á völlum landsins.
Mörg félög hafa leyfi til þess að selja léttvín á leikjum en félög í Reykjavík hafa ekki fengið þau leyfi.
Víkingur er eitt þeirra félaga sem bíða eftir því að Reykjavíkurborg gefi út leyfir fyrir áfengissölu en lögreglan hefur á meðan verið að fara yfir málin.
Haukur Hinriksson, framkvæmdarstjóri Víkings, var boðaður á fund lögreglu á dögunum en kjaftasaga um að hann hafi verið kærður vegna málsins eru ekki réttar.
„Ég var boðaður í spjall með lögreglu út af sölu á leikjum, þetta var ekki alvarlegra en það,“ segir Haukur í samtali við 433.is um það hvort sagan um kæru væri rétt.
Lögreglan hefur einnig litið við á leik í Víkinni þar sem bjór var seldur. „Það kom lögregla á einn leik, það er í einhverri rannsókn. Við vitum ekki hvort það endi í sekt eða áminningu.“
Á meðan lögreglan er með málið á borði sínu er Víkingur að bíða eftir leyfi fyrir sölunni sem Breiðablik, Stjarnan og fleiri lið hafa fengið.
„Við erum að bíða eftir þessu öllu saman,“ segir Haukur.