Manchester City ætlar sér að halda bæði Ederson og James Trafford í markmannsstöðunni að loknum félagaskiptaglugganum, en félagið er samt sem áður byrjað að undirbúa sig fyrir að eitthvað geti gerst.
Ederson er kominn á síðasta ár samnings síns og mikill áhugi er frá Galatasaray. City vill ekki sitja eftir með skarð í markmannsstöðunni og hefur því gert varaplan.
Félagið vill þá fá Gianluigi Donnarumma frá PSG og talið er að samband hafi verið haft á milli félaganna. Sky Sports fjallar um málið
Engar formlegar samningaviðræður hafa þó átt sér stað enn sem komið er og verðmat félaganna á leikmanninum virðist vera ólíkt. PSG metur ítalska landsliðsmarkvörðinn á milli 35 og 43 milljóna punda.
Þvert á það sem sumir miðlar hafa haldið fram hefur Manchester City ekki komist að samkomulagi við fulltrúa Donnarumma um kaup og kjör.
Donnarumma kvaddi PSG-aðdáendur síðastliðið föstudagskvöld og var ekki í hópnum þegar liðið lagði Angers að velli í frönsku deildinni.
Með rúma viku eftir af glugganum er það því undir Ederson komið hvort hann vilji burt, fari hann ekki mun félagið ekki festa kaup á Donnarumma.
Ederson sat á bekknum þegar City tapaði 0-2 gegn Tottenham, þar sem Trafford stóð í markinu og gaf Spurs eitt mark.