Vandræði 3. deildarliðsins ÍH halda áfram og náði liðið ekki að manna leikmannahóp til að mæta í leik sem átti að fara fram gegn KV í gær. Vesturbæingum var því dæmdur 3-0 sigur. Hafnfirðingar verða sjálfkrafa dæmdir úr leik af KSÍ ef svona gerist aftur í lokaumferðum mótsins.
Málefni ÍH hafa verið til umfjöllunar undanfarna daga. Liðið mætti með kolranga leikskýrslu gegn Magna í síðustu umferð, þar sem það tapaði 15-0. Menn sem ekki voru á svæðinu voru til að mynda skráðir í byrjunarliðið.
„Það mál er bara í skoðun hjá aga- og úrskurðarnefnd. Ég get svosem lítið sagt um það mál að svo stöddu það sem það er bara þar,“ sagði Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, við 433.is nú í morgunsárið. Þess má geta að aganefndin fundar á þriðjudögum.
Þá að leiknum í gær. ÍH náði sem fyrr segir ekki að manna lið gegn KV og því dæmdur ósigur. Liðið sótti þó um frestun en með mjög skömmum fyrirvara.
„ÍH hefur samband við mig og er að skoða möguleikann á frestun. Ég sagði við þá að það væri enginn séns nema að samþykki mótherjans lægi fyrir,“ sagði Birkir.
ÍH leitaði einmitt til mótherjans. Stjórnarmaður KV furðar sig á því að ákvörðunin sé sett í þeirra hendur með svo skömmum fyrirvara.
„ÍH óskar eftir því að fresta leik að morgni leikdags sem átti að hefjast klukkan 14 því þeir mögulega ná ekki í lið. Ég ráðlegg ÍH mönnum að hafa samband við KSÍ því ég stórefaðist um að sambandið leyfi frestun á leik með þessum fyrirvara þegar ástæða frestunar er að liðið er með 5 leikmenn klára í leikinn,“ segir í færslu Auðuns Arnar Gylfasonar á X.
Auðunn segist svo hafa frétt af jákvæðum viðbrögðum KSÍ við frestun skömmu fyrir hádegi. Þá liggi ákvörðunin hjá KV. Frestun var alls ekki hentugur kostur fyrir liðið vegna anna á svæði KR næstu daga, en KV er venslalið þess.
„Allt í einu er það undir KV komið hvort við fáum gefins 3 stig og leikurinn verði ekki spilaður eða sýna ÍH vorkunn á sjálfskipuðum vandræðum og reyna að finna annan nánast ómögulegan leiktíma með líklegast sömu afleiðingum. Hvernig eru ekki skýrar reglur hjá sambandinu að þú færð ekki frestun í gegn 2. klst. fyrir leik? Hvað ef KV væri að berjast um að fara upp og þyrfti til dæmis 15 mörk til að laga markatöluna? Vakna KSÍ, í hvelli takk því þetta mun klárlega koma fyrir aftur,“ segir Auðunn enn fremur.
Birkir var spurður út í þessi ummæli. Hann segir það almennt alls ekki ákjósanlegt fyrir KSÍ að fresta leikjum.
„Ég hef nú kannski lítið um það að segja. Hlutverk mótanefndar er að fjalla um óskir félaga á breytingum á leikjum. Í þessu tilfelli fékk ÍH strax svar um að þeir fengju það ekki nema með samþykki KV. Ég hef ekkert meira um það að segja í sjálfu sér. Við viljum almennt halda leikjadagskránni en það geta komið upp ýmsar aðstæður sem kalla á breytingar á leikjum, en það er mjög óvanalegt að þær komi upp með svona stuttum fyrirvara. Þeir bara áttu ekki lið og það er ekki sjálfgefið að menn fái leik frestað bara því þeir ná ekki í lið.“
ÍH verður sektað fyrir að mæta ekki til leiks í gær. „Það eru háar sektir og ef að menn mæta ekki tvisvar er þeim vísað úr mótinu,“ sagði Birkir, en þrjár umferðir eru eftir af móti í 3. deild.