Það hefur skapast mikil umræða um það að bikarúrslitaleikur karla milli Vals og Vestra, sem hófst nú fyrir skömmu, sé á hliðarrás RÚV, RÚV 2, en ekki aðalrásinni. Það var tekist á um þetta í hlaðvarpinu Dr. Football í dag.
Einhverjir hafa látið val RÚV fara í taugarnar á sér þar sem bikarúrslitaleikur kvenna var á aðalstöðinni. Hann skaraðist þó ekki á við fréttatíma eins og leikur kvöldsins.
„Er RÚV 2 eitthvað öðruvísi en önnur hliðarrás hjá annarri sjónvarpsstöð? Hvaða máli skiptir það á hvaða stöð þessi leikur er? Höndlar þumallinn þinn ekki að skipta,“ sagði Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður á RÚV, í Dr. Football.
Hjörvar Hafliðason þáttastjórnandi tók þá til máls. „Heldur þú að Valur-KR færi á RÚV 2? Snýst þetta ekki bara um að Vestri er í úrslitunum?“ spurði hann áður en Gunnar svaraði á ný.
„Þetta hefur ekkert með það að gera. Farðu ekki í einhverja landbyggðardýrkun. Hvaða máli skiptir þetta? Þeir sem ætla að horfa á þennan leik munu horfa á þennan leik.“
Hjörvar benti þá á að Vikan með Gísla Marteini, vinsælasti sjónvarpsþáttur á Íslandi, yrði aldrei færður.
„Það er ástæða fyrir því að Gísli Marteinn er aldrei færður á RÚV 2. Hringdu í mig daginn sem það gerist,“ sagði hann.
„Ég skil ekki þessa umræðu, þú ert fullorðinn maður. Þú kemst alls staðar á RÚV 2. Kvennaleikurinn var klukkan 16 á laugardegi (skaraðist því ekki á við fréttatíma),“ sagði Gunnar.