Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, var að vonum sáttur og stoltur eftir að liðið vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil með sigri á Val í kvöld.
„Ég er orðlaus ef ég á að vera hreinskilinn. Ég hafði alltaf trú á að við myndum vinna leikinn. Þetta var frábær frammistaða en við vorum líka heppnir. Við vorum að spila á móti stórkostlegu liði Vals. En Guy var frábær, vörnin líka og Jeppe skorar þetta stórkostlega mark,“ sagði Davíð við RÚV eftir leik.
Vestfirðingar tóku yfir Laugardalinn í dag og það skipti máli.
„Orkan sem við getum fengið frá fólkinu okkar fyrir Vestan, við seldum fleiri miða en Valsarar og það er risastórt. Ég held að 45 prósent af fólkinu fyrir vestan sé hér á vellinum. Ég er ótrúlega stoltur og á engin orð,“ sagði Davíð.