Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Cecilía Rán Rúnarsdóttir, aðalmarkvörður íslenska landsliðsins, segir markvarðatríó liðsins vera eins og best verður á kosið og samband þeirra sé gott.
Fanney Inga Birkisdóttir og Telma Ívarsdóttir eru einnig markmenn Íslands en þurfa að láta sér það að góðu verða að sitja á bekknum og styðja við Cecilíu.
„Þetta er skrýtin staða því við erum allar þrjár að berjast um eina stöðu,“ sagði Cecilía á blaðamannafundi fyrir lokaleik Íslands á EM gegn Noregi á morgun.
„En við erum allar ótrúlega þakklátar fyrir að vera svona góðar vinkonur. Við erum með góðan markmannsþjálfara sem styður okkur í öllu og við styðjum hvora aðra.
Eins og ég segi erum við allar góðar vinkonur og það er alls ekki algengt. Sá sem spilar finnur fyrir því,“ sagði hún enn fremur.
Ísland er þegar úr leik á mótinu eftir töp gegn Finnum og Sviss í fyrstu tveimur leikjum riðilsins.