Viðtal við Glódísi Perlu Viggósdóttur landsliðsfyrirliða eftir tapið gegn Sviss á EM um helgina vakti mikla athygli. Sagðist hún þar ekki geta fyrirgefið sér fyrir að hafa farið af velli gegn Finnum í fyrsta leik.
Ísland er úr leik eftir töp gegn Finnum og Sviss, en Glódís fór af velli í hálfleik í fyrri leiknum þar sem hún hafði verið fárveik og var ekki búin að ná sér.
„Hún segist ekki geta fyrirgefið sér að fara út af á móti Finnum. Ég held að flestir séu þakklátir fyrir að hún hafi gefið heilan hálfleik,“ sagði Helgi Fannar Sigurðsson í hlaðvarpi 433.is um EM.
„Ég held að leikmenn sem komu út til okkar í viðtöl eftir leikinn hafi bara verið í sjokki. Þú ætlar upp úr riðlinum og ert í léttasta riðlinum, tapar á móti Finnlandi, sem þú sást alls ekki fyrir þér. Svo ertu bara slegin niður á jörðina,“ sagði Bjarni Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu.
„Ég held að þegar rykið er sest og hún horfir til baka sjái hún að það var bara sturlað að hún hafi náð að spila þennan hálfleik,“ sagði hann enn fremur.
Ísland á einn leik eftir á mótinu gegn Noregi. Það er ekkert undir í þeim leik nema stoltið.