Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Það er stór hópur starfsliðs sem fylgir íslenska kvennalandsliðinu eftir hér á EM í Sviss. Yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ myndi þó alveg þiggja fleiri.
„Ég hef heyrt fólk spyrja hvað allt þetta fólk sé að gera hérna en staðan er sú að við myndum alveg þiggja fleiri hendur,“ sagði Jörundur Áki Sveinsson við 433.is úti í Sviss á dögunum.
Stelpurnar okkar eru því miður úr leik á EM þó svo að einn leikur sé enn eftir, en á þriðja tug manna starfa í kringum liðið hér úti.
„Ég held svolítið utan um þetta og er með rosalega öflugt teymi með mér í því. Það eru samskipti við UEFA, samskipti við ykkur fjölmiðlafólk, samgöngumál, miðamál, bara endalaust af verkefnum sem rata inn á mitt borð,“ sagði Jörundur þá um sitt hlutverk.
„En ég er með frábært starfslið sem hjálpar mér og gerir mitt líf gott.“