Enskir knattspyrnustuðningsmenn eru margir hverjir ósáttir við ummæli Aitana Bonmati, skærustu stjörnu Spánverja, eftir úrslitaleik liðanna á EM í gær.
England vann heimsmeistarana eftir vítaspyrnukeppni, þar sem Bonmati klikkaði til að mynda, en hún er af mörgum talin besta knattspyrnukona heims og hlaut hún Ballon d’Or verðlaunin fyrir síðasta ár.
Enska liðið var ekki allt of sannfærandi allt mótið en varði titil sinn frá því 2022 þrátt fyrir það.
„Enska liðið getur spilað illa en samt unnið. Þannig hefur það verið allt mótið en svona er fótbolti, stundum þurfa lið ekki að gera mikið til að vinna,“ sagði Bonmati eftir leik.
Enskir netverjar létu hana margir hverjir heyra það fyrir þessi ummæli, eins og miðlar ytra hafa vakið athygli á. Var hún til að mynda sögð tapsár og bitur.