Fyrrum knattspyrnumaðurinn Joey Barton ákvað enn á ný að skella sér á lyklaborðið og birta niðrandi færslu eftir sigur enska kvennalandsliðsins á EM í gær.
England vann heimsmeistara Spánar í vítasspyrnukeppni í úrslitaleiknum í Basel og varði þar með titil sinn frá því fyrir þremur árum.
Eftir knattspyrnuferilinn hefur Barton dembt sér í að hatast út í konur og knattspyrnu kvenna og sá hann ástæðu til að stinga niður penna í gær.
„Til hamningju England fyrir að vinna kjaftæðisbikarinn. Vandræðaleg víti enn á ný. Aldrei biðja um jöfn kjör aftur,“ skrifaði hann.
Þetta mætti auðvitað mikilli gagnrýni og hundruðir svöruðu færslunni. Var til að mynda bent á að árangur kvennalandsliðsins væri mun betri en hann náði á sínum ferli.
„Þær hafa unnið EM oftar en þú spilaðir landsleik,“ skrifaði einn netverji, en Barton kom við sögu í einum vináttulandsleik fyrir England á ferlinum.