Það er ekki rétt að bæði Xavi og Pep Guardiola hafi sent inn umsókn til indverska knattspyrnusambandsins í von um að taka við landsliðinu þar í landi.
Þetta kemur fram í tilkynningu indverska knattspyrnusambandsins en í gær var greint frá því að Xavi hefði fengið höfnun frá sambandinu.
Umsóknin var hins vegar ekki frá Xavi sjálfum og eftir stutta rannsókn varð ljóst að um einhvers konar grín væri að ræða.
Einhverjum prakkara tókst að plata þá indversku um stutta stund með því að þykjast senda inn umsókn frá bæði Guardiola og Xavi.
Xavi er án félags í dag en var síðast stjóri Barcelona og vann til að mynda deildina með félaginu á sínum tíma þar.