Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Íslenska kvennalandsliðið er úr leik á EM í Sviss en getur þó safnað peningum í kassann með góðum úrslitum í lokaleik sínum gegn Noreg í kvöld.
Ísland fær 1,8 milljón evra fyrir að hafa komist á mótið, en getur sú upphæð hækkað eftir frammistöðu á mótinu sjálfu. Það hefur ekki enn gerst hjá Stelpunum okkar þar sem þær hafa hingað til tapað gegn Finnlandi og Sviss.
KSÍ fær því ekki þær 550 þúsund evrur sem hefðu hlotist af því að kvennalandsliðið næði markmiðum sínum og færi upp úr riðlinum.
Það sem er þó enn undir eru 100 þúsund evrur, um 14 milljónir íslenskar, sem myndu fást fyrir sigur í kvöld. 50 þúsund evrur fást fyrir jafntefli.
Leikur Íslands og Noregs hefst klukkan 19 í kvöld að íslenskum tíma.