„Spurning hvort við sendum fimm sálfræðinga með liðinu á næsta mót í staðinn fyrir einn,“ skrifar Bjarni Helgason stjörnublaðamaður Morgunblaðsins í blað dagsins.
Bjarni er sá blaðamaður á Íslandi sem hefur fylgst best með landsliðinu undanfarið ár og þekkingin er því gríðarleg.
Bjarni er staddur á Evrópumótinu í Sviss þar sem Ísland er úr leik eftir töp í fyrstu tveimur leikjum mótsins, liðið klárar mótið í kvöld gegn Noregi þar sem úrslitin skipta hvorugt liðið nokkru máli. Ísland er á leið heim og Noregur er búið að vinna riðilinn.
Miklar væntingar voru gerðar til íslenska liðsins sem þær stóðu ekki undir og þjálfarinn Þorsteinn Halldórsson er undir pressu. „Væntingarnar og kröfurnar til liðsins voru miklar fyrir mótið, meðal annars vegna þess að við drógumst í langléttasta riðilinn. Maður hefur alveg velt því fyrir sér hvort þessar væntingar og kröfur hafi verið miklar.“
„ „Þær höndluðu ekki pressuna,“ svaraði ég norskum kollega mínum eftir að hafa hugsað mig vel og lengi um,“ skrifar Bjarni.
Bjarni telur það einu haldbæru útskýringuna að leikmenn liðsins réðu ekki við væntingar. „Sama hvað maður reynir að leikgreina liðið, spilamennskuna og frammistöðuna heilt yfir er það einhvern veginn augljósasta niðurstaðan í þessu öllu saman.“