Kristófer Ingi Kristinsson sóknarmaður Breiðabliks hefur á síðustu mánuðum gengið í gegnum ýmislegt. Síðasta haust átti hann stóran þátt í því að liðið varð Íslandsmeistari.
Eftir tímabilið var ákveðið að senda Kristófer í aðgerð á ökklum og átti það bataferli að vera eðlilegt. Hann lenti hins vegar í því að fá sýkingu og varl lagður inn á gjörgæslu.
Kristófer mætti aftur á völlinn á mánudag og reyndist hetja Breiðabliks í 3-3 jafntefli gegn KR, jafnaði hann leikinn undir restina.
„Ég fór í aðgerð á báðum ökklum í haust eftir síðasta tímabil og í janúar lenti ég síðan upp úr engu í því óhappi að fá heiftarlega streptakokka sýkingu í ökklann þar sem ég endaði á því að verða fárveikur,“ skrifar Kristófer á Facebook.
„Ég var lagður inn á gjörgæslu í eina viku þar sem að mikil óvissa ríkti vegna þess að sýkingin var búin að dreifa sér inn í ökklann og bólgumörk í blóði orðin mjög há þar sem ég var kominn með blóðsýkingu.“
Verr hefði getað farið en Kristófer fór nógu tímalega til læknis til að bjarga málunum. „Sem betur fer fór ég nógu tímanlega á spítalann þannig að sýklalyfin náðu að snúa hlutunum við og komu í veg fyrir enn frekari vandamál. Eftir það hófst langt endurheimtar ferli þar sem hlutirnir voru teknir frá degi til dags í von eftir því besta. Í gær tókst mér að komast aftur á völlinn eftir mikla vinnu og er ég gífurlega þakklátur fyrir þann stuðning og hjálp sem ég hef fengið í gegnum þessa vegferð. Maður veit aldrei hvað getur gerst í lífinu og er þessi lífsreynsla mjög mikill “eye opener” fyrir mig og hvað maður má vera þakklátur fyrir heilsuna og þeim forréttindum sem fylgja henni.“