Það mun kosta Real Madrid tæpa milljón punda að fá Trent Alexander-Arnold til félagsins fyrir HM félagsliða í júní, ef marka má spænska miðla.
Trent tilkynnti í gær að hann myndi fara frítt frá Liverpool í sumar þegar samningur hans rennur út. Það hefur ekki verið staðfest að hann fari til Real Madrid en á því eru allar líkur.
Skiptin ganga að óbreyttu í gegn um mánaðarmótin júní-júlí en Real Madrid vonast til að fá hann fyrir 18. júní, en þá hefur liðið leik á HM og mætir Al-Hilal.
Spænska blaðið AS segir að Liverpool muni krefjast um 850 þúsund punda greiðslu frá Real Madrid ef Trent á að fara fyrir HM. Spánverjarnir höfðu áður boðið um helmingi lægri upphæð.
Þá fer Liverpool einnig fram á það að Trent gefi eftir launin sín í júní.
Nái félögin ekki saman gæti Trent enn náð að koma við sögu á HM, en félög hafa leyfi til að skrá leikmenn milli 27. júní og 3. júlí. Í því tilfelli myndi enski bakvörðurinn aðeins missa af riðlakeppninni.