Daði Berg Jónsson, einn besti leikmaður Bestu deildarinnar til þessa, verður væntanlega ekki með Vestra gegn Víkingi í uppgjöri toppliðanna á morgun.
Daði, sem er aðeins 18 ára gamall, er með fjögur mörk og tvær stoðsendingar í fyrstu átta umferðunum, en Vestri er óvænt í öðru sæti.
Hann er hins vegar á láni frá Víkingi og er samkomulag á milli félaganna um að hann megi ekki spila gegn þeim. Geri hann það þarf Vestri að greiða Víkingi 2,5 milljónir króna, eftir því sem fram kemur á Fótbolta.net.
Leikurinn á morgun hefst klukkan 14 og fer hann fram fyrir vestan.