Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir hafði val um að fara til Englands þegar hún yfirgaf Wolfsburg eftir tímabilið, en kaus að fara til Bandaríkjanna.
Sveindís skrifaði undir hjá Angel City í Bandaríkjunum á dögunum. Hún vonast til að spila á Englandi einn daginn og segir að það hefði að einhverju leyti verið auðdeldara að fara þangað, en kærasti hennar, Rob Holding, spilar með Crystal Palace í London.
„Valið stóð á milli tveggja félaga. Annað var á Englandi og hitt í Bandaríkjunum. Þegar allt kom til alls þá fannst mér ekki nægilega spennandi að fara til Englands, ekki á þessum tímapunkti allavega. Mig langar að spila þar einn daginn og vonandi gengur það eftir en ég ákvað að fara aðeins út fyrir þægindarammann líka.
Kærastinn minn býr á Englandi og það hefði verið auðvelt val að fara þangað. Ég tók þessa ákvörðun með mína hagsmuni og minn feril í huga. Ég er í fótbolta fyrir sjálfa mig og ég er með mín markmið. Það er vissulega ansi langt á milli okkar núna en vonandi kemur hann bara til Bandaríkjanna einn daginn til þess að spila fótbolta,“ sagði Sveindís í samtali við Morgunblaðið í dag.