Raul Asencio varnarmaður Real Madrid er í hópi fjögurra karlmanna sem sakaðir eru um það að dreifa barnaklámi. Hann hafnar allri sök.
Asencio er 22 ára gamall og er í stóru hlutverki hjá Real Madrid en hinir þrír sem eru sakaðir um sama brot voru með honum í unglingaliði Real Madrid.
Ferran Ruiz, 22, Andres Garcia, 22, og Juan Rodriguez, 23 ára eru allir sakaðir um sama hlut.
„Ég hef ekki tekið þátt í neinu sem kemur að því að brjóta gegn kynferðislegu frelsi kvenna og hvað þá barna,“ segir Asencio.
„Fari málið lengra mun ég verja sjálfan mig, ég er öruggur á því að ég hef ekki framið neinn glæp.“
Þeir eru sakaðir um að hafa viljandi dreif klámi af fólki sem þeir höfðu komist yfir, þar á meðal var barnaklám.
Þeir voru allir handteknir árið 2023 þar sem móðir 16 ára stúlku kvartaði til lögreglu þar sem dóttir hennar var á einu myndbandinu.
Málið er nú á leið fyrir dómstóla og gæti Asencio átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi.