Aron Einar Gunnarsson er á sínum stað í nýjasta landsliðshópi Arnars Gunnlaugssonar fyrir æfingaleiki gegn Skotlandi og Norður-Írlandi.
Aron Einar var á milli tannana á fólki eftir leiki gegn Kosóvó í mars þar sem hann var rekinn af velli í seinni leiknum.
Aron leikur með Al-Gharafa í Katar. „Ég bý yfir þeim lúxus að geta horft á leikina ansi oft, maður er að líta heildstætt á hans frammistöðu. Hann var mjög flottur fyrstu 60-70 mínúturnar í fyrri leiknum en fær svo rautt í seinni leiknum,“ segir Arnar um málið.
Aron var að gera nýjan samning við Al-Gharafa og verður í stærra hlutverki á næstu leiktíð. „Hann var að skrifa undir samning og fær eitt ár í viðbót, við eigum að hafa hann í huga þegar alvaran byrjar í haust. Þetta er tricky gluggi, sumargluggi. Menn mæta fyrir hönd Íslands og vilja gera sitt besta, margir átt langt og strangt tímabil. Aðeins í hausnum farnir að gefa eftir og komnir á ströndina.“
„Ég vænti mikils af Aroni að vera gott fordæmi.“