Marcus Rashford stefnir á að vera áfram hjá Aston Villa á næstu leiktíð þrátt fyrir sterka orðróma um áhuga hans á að fara til Barcelona undanfarið.
Þetta kemur fram í breska blaðinu The Express, en enski sóknarmaðurinn er á láni hjá Villa frá Manchester United. Hann var algjörlega kominn út í kuldann hjá Ruben Amorim á Old Trafford.
Rashford hefur þó tekist að kveikja í ferli sínum á ný á Villa Park og er hann með fjögur mörk og sex stoðendingar í sautján leikjum eftir áramót.
Það er nánast útilokað að Rashford spili fyrir United á ný, en undanfarið hefur verið fjallað um að hann vilji helst fara til Barcelona.
Samkvæmt nýjustu fréttum vill hann þó vera áfram á Englandi og spila fyrir Villa, sem þyrfti þá líklega að kaupa hann í sumar.
Hindrun sem þarf að yfirstíga eru þó launamál Rashford, sem þénar 350 þúsund pund á viku í samningi sínum hjá United. Ljóst er að Villa getur ekki greitt honum svo há laun.