Nemanja Matic, fyrrum Manchester United, var erfiðasti andstæðungur Yaya Toure í ensku úrvalsdeildinni á sínum tíma.
Það er Toure sjálfur sem hafði þetta að segja í samtali við FourFourTwo en hann var öflugur miðjumaður Manchester City í mörg ár.
Matic gerði garðinn frægan sem leikmaður Chelsea og United en hann er í dag á mála hjá Lyon í Frakklandi.
Serbinn var erfiður viðureignar að sögn Toure sem var sjálfur þekktur fyrir að vera mjög sterkur og kraftmikill leikmaður.
,,Það var mjög flókið verkefni að spila gegn Matic. Hann er kannski ekki beint fljótur en hann er snjall og mjög sterkur,“ sagði Toure.
,,Ég skoðaði alla andstæðingana vel fyrir leiki og reyndi að finna út þeirra veikleika en hann var með fáa.“