

Leikkonan vinsæla Sydney Sweeney fékk þó nokkur skilaboð frá þekktum mönnum og þar á meðal leikmönnum í ensku úrvalseildinni í kjölfar frétta um sambandsslit hennar og Jonathan Davino í byrjun árs.
Þetta hefur ratað upp á yfirborð enskra götublaða í kjölfar frétta um að Sweeney væri að hitta Christian Pulisic, fyrrum leikmann Chelsea og nú AC Milan. Bandaríkjamaðurinn hefur hafnað þessu alfarið, enda í sambandi sjálfur.
The Sun fjallaði hins vegar um það að leikmenn liða á borð við Arsenal, Liverpool og Manchester United hafi sent Sweeney skilaboð á árinu. Vildu þeir fara með henni á stefnumót og buðust þeir meðal annars til að fljúga henni til sín samkvæmt blaðinu.
Sweeney, sem hefur gert garðinn frægan í þáttum eins og Euphoria, The White Lotus og The Handmaid’s Tale, þáði þó ekkert slíkt boð samkvæmt fréttunum.