
Landsliðsferli Pierre-Emerick Aubameyang með Gabon virðist vera lokið og það á fremur dapran hátt, en hann yfirgaf herbúðir liðsins í Afríkukeppninni vegna meiðsla og mun ekki taka þátt í síðasta leik liðsins í riðlakeppninni.
Gabon er þegar úr leik á keppninni eftir tap í fyrstu tveimur leikjum sínum í F-riðli gegn Kamerún og Mósambík.
Liðið mætir ríkjandi meisturum Fílabeinsstrandarinnar í síðasta leiknum á morgun, en sá leikur hefur enga þýðingu fyrir framhald keppninnar.
Aubameyang, sem er 36 ára, hélt aftur til Frakklands á þriðjudag og snýr þar aftur til félagsliðs síns, Marseille.
Gert var ráð fyrir að leikurinn gegn Fílabeinsströndinni yrði sá síðasti á 16 ára landsliðsferli hans, en hann getur ekki spilað hann og landsliðsferlinum því líklega lokið.