
Srdjan Tufegdzic, Túfa, er að taka við liði í sænsku B-deildinni eftir að hafa hafnað ÍBV, eftir því sem fram kemur í Þungavigtinni í dag.
Túfa var látinn fara frá Val í haust þrátt fyrir að hafa skilað góðu starfi, en liðið hafnaði í 2. sæti deildar og bikars á síðustu leiktíð.
Hann hefur verið sterklega orðaður við ÍBV en hefur samkvæmt Þungavigtinni hafnað Eyjamönnum og ætlar hann að taka við Varnamo í Svíþjóð.
Varnamo hafnaði í neðsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í ár og verður því í B-deildinni á næstu leiktíð.
Túfa er afar reynslumikill þjálfari og hefur stýrt KA og Grindavík hér á landi sem og Val. Þá verður þetta ekki hans fyrsta starf í Svíþjóð, en hann hefur einnig stýrt Skövde og Öster þar í landi.