
Framtíð Andreas Christensen hjá Barcelona er óljós þar sem Daninn er kominn inn á síðustu sex mánuði samnings síns við félagið. Engar viðræður um framlengingu hafa átt sér stað og samkvæmt spænska miðlinum AS er félagið ekki að flýta sér að bjóða varnarmanninum nýjan samning.
Christensen, sem er 29 ára, kom til Barcelona frá Chelsea sumarið 2022 og var mikilvægur hlekkur undir stjórn Xavi. Hann hefur reynst Hansi Flick góður þjónn einnig, spilað á miðjunni líka til að mynda, en ekki náð að negla stöðu sína í byrjunarliðinu.
Samkeppnin í vörninni hefur aukist með frammistöðu hins unga Pau Cubarsi og endurkomu Ronald Araujo. Talið er að Börsungum finnist freistandi að losna við launapakka Christensen.
Það er áhugi á Christensen á Englandi, til að mynda frá Newcastle, en einnig frá Sádi-Arabíu, þar sem miklir peningar verða án efa í boði.
Óljóst er hvort Christensen geti farið strax í janúar eða bíði þar til eftir tímabil með það, fari hann á annað borð frá Katalóníu.