

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, og Bjarni Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu, voru gestir Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni.
Einhverjir hafa haldið samsæriskenningum á lofti um að Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari velji heldur leikmenn sem eru á vegum umboðsskrifstofunnar Stellar í landsliðið en aðra. Bróðir hans, Bjarki, starfar þar. Hafa hann og fleiri gefið þeim langt nef og grínaðist Arnar til að mynda með þessa umræðu í viðtali við 433.is á dögunum.
Að því tilefni var þessi umræða tekin fyrir í þættinum og sagði Bjarni frá því hvenær hann varð var við hana. „Við fórum að fá símtöl þegar Brynjólfur var ekki valinn þegar hann var markahæstur í Hollandi. Mönnum fannst það skrýtið,“ sagði hann og hélt áfram.
„Menn geta alveg sett spurningamerki við val en að segja að þetta tengist þessu er svo galið. Það hafa allir á landinu skoðun á þessu liði og Arnar er ekkert að fara að skjóta sig í fótinn með því að velja leikmenn frá ákveðinni umboðsskrifstofu.“
Elvar er á því að þetta fylgi því að þjálfa landsliðið.
„Ef þú ert íslenskur þjálfari með íslenska landsliðið verður þú að búa þig undir að það verði samsæriskenningar. Við erum svo ótrúlega lítið samfélag, allir þekkja alla og hafa verið með öllum, þú ert með tengingar út um allt.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.