

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolta.net, og Bjarni Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu, voru gestir Helga Fannars Sigurðssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni.
Hörður Björvin Magnússon er kominn í landsliðshópinn á ný eftir að hafa jafnað sig af meiðslum. Hefur hann spilað síðustu leiki með Levadiakos í Grikklandi.
„Með fullri virðingu fyrir honum þá sýnir þetta að við erum ekki vel staddir varnarlega. Ef hann er heill og getur æft á hann í raun vísa leið inn í landsliðshópinn,“ sagði Elvar í þættinum.
Benti hann á að mikill munur væri á stöðu okkar varnar- og sóknarlega.
„Samkeppnin fram á við er þannig að Sævar Atli og Orri Steinn eru frá en samt kemst Viktor Bjarki ekki í hópinn. Það er leiðinlegt að tala alltaf um þetta en þetta er langstærsta vandamál okkar, skortur á varnarmönnum.“
Bjarni tók til máls. „Hörður Björgvin var fínn í bakverðinum með Heimi og Lars en síðan hefur hann aldrei neglt sína stöðuna í landsliðinu og sýnt solid frammistöðu. Hann hefur aldrei náð hæstu hæðum með landsliðinu miðað við félagsliðin sem hann hefur spilað með.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.