
Englendingurinn Alex Oxlade-Chamberlain, sem nú æfir með Arsenal eftir að hafa orðið samningslaus, segist hafa hafnað nokkrum tilboðum frá félögum erlendis.
Þessi 32 ára gamli miðjumaður var leystur undan samningi sínum hjá tyrkneska liðinu Besiktas í sumar eftir tvö tímabil í Istanbúl. Hann hefur fengið tilboð utan Englands en vill helst spila þar.
„Ég var oft sex til átta vikur án þess að sjá son minn og unnustu. Það var erfitt og ég vil ekki fara í gegnum það aftur. Nú snýst þetta ekki bara um mig heldur fjölskylduna líka,“ sagði hann.
Oxlade-Chamberlain er trúlofaður söngkonunni Perrie Edwards, sem er ófrísk að öðru barni þeirra, og segir hann fjölskylduna ráða miklu um næstu ákvörðun sína.
„Ég hef hafnað tilboðum sem ekki pössuðu fyrir mig og okkur. Ég er að bíða eftir rétta verkefninu sem kveikir í mér og fjölskyldunni.“
Chamberlain, sem vann deild og Meistaradeild með Liverpool og enska bikarinn í þrígang með Arsenal, hefur til að mynda verið orðaður við endurkomu til Southampton, sem spilar í ensku B-deildinni.