

Rúben Amorim segir að Manchester United sé mun sterkara lið nú en það sem tapaði úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Tottenham í maí. Liðin mætast aftur um helgina í stórleik í ensku úrvalsdeildinni.
United missti af Meistaradeildarsæti og um 100 milljóna punda tekjum með 1-0 tapi á San Mamés í Bilbao síðasta vor.
En eftir erfiða byrjun á tímabilinu hefur liðið unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum og Amorim segir að sjálfstraust og leikskipulag sé komið á allt annað stig.
„Við erum betra lið núna,“ sagði Amorim.
„Við skiljum leikinn betur, stjórnum leikhlutum betur og spilum með meira sjálfstraust. Við vorum vissulega sjálfsöruggir fyrir úrslitaleikinn, en í dag finnst mér liðið enn sterkara í því hvernig það tekst á við þessar stundir.“
Amorim bendir þó á að tapið hafi ráðist á einu skoti og vonar að heppnin verði með United að þessu sinni.
Hann viðurkennir jafnframt að það að vera ekki í Evrópukeppni veiti meiri tíma til æfinga þó hann myndi frekar vilja vera í stöðu Tottenham.
„Auðvitað myndi ég vilja vera í Meistaradeildinni og hafa stærri leikmannahóp,“ sagði hann.
„En við nýtum jákvæðu hliðarnar, meiri tími til að vinna, styrkja tengingar liðsins og undirbúa framtíðina.“