

Það er óhætt að segja að ferill samfélagsmiðlastjörnunnar og áhrifavaldsins Kinsey Wolanski hafi tekið á flug eftir að hún hljóp inn á völlinn í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir rúmum sex árum síðan.
Margir muna eftir atvikinu. Um var að ræða leik á milli Liverpool og Tottenham, þar sem fyrrnefnda liðið stóð uppi sem Evrópumeistari. Wolanski, sem er einnig mikill Íslandsvinur og hefur heimsótt landið oft, óð fáklædd inn á völlinn í miðjum leik.

Það er auðvitað stranglega bannað og var hún handsömuð. Þurfti Wolanski að dvelja í fangaklefa skamma stund. Síðan þá hefur hún hins vegar rakað inn fylgjendum á samfélagsmiðlum. Er hún til að mynda með 3,7 milljónir fylgjenda á Instagram og enn í fullu fjöri þar. Það má því segja að athæfið hafi að mörgu leyti borgað sig.
Wolanski hefur í dag tekið upp splunkuný áhugamál og gert sér feril úr þeim, meðfram því að vera auðvitað ansi vinsæll áhrifavaldur. Hún hefur nefnilega á undanförnum árum öðlast atvinnuflugmannsréttindi og hefur hún einnig réttindi til að fara í fallhlífarstökk.
Þetta hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig, en Wolanski ökklabrotnaði eitt sinn eftir misheppnað fallhlífarstökk í miklum vindi. Wolanski kveðst hamingjusöm með þennan nýja lífstíl samt sem áður. Hún kemur inn á það að flugnámið hafi verið langt og strangt.
„Ég flaug 112 klukkustundir áður en ég fór í lokaprófið. Þú þarft að standast þrjú próf, skriflegt, munnlegt og svo flugpróf. Þetta tók eitt og hálft ár,“ sagði hún.