„Það var mjög gaman. Ég er ótrúlega stoltur af klúbbnum, Sölva og leikmönnunum,“ sagði Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari um Íslandsmeistaratitil sinna fyrrum lærisveina í Víkingi, sem þeir tryggðu sér á dögunum.
Komið var inn á þetta á blaðamannafundi Arnars í Laugardalnum í dag fyrir landsleik Íslands gegn Úkraínu annað kvöld. „Það var erfitt að óska þeim til hamingju morguninn eftir, þeir voru frekar þunnir kapparnir,“ sagði hann enn fremur og uppskar mikinn hlátur.
Arnar var þjálfari Víkinga í sex ár og gerði liðið að Íslandsmeisturum 2021 og 2023, sem og að bikarmeisturum fjórum sinnum.
„Þetta er geggjað fyrir félagið, ótrúleg stemning sem myndaðist. Fyrir mig persónulega var þetta eins og að sjá barnið sitt halda áfram að gera góða hluti, eiginlega meiri gleði en að vinna sjálfur. Framtíð félagsins er í toppmálum,“ sagði Arnar í dag.