Cristiano Ronaldo hefur verið útnefndur fyrsti knattspyrnumaðurinn til að verða milljarðamæringur, að því er kemur fram í ítarlegri greiningu Bloomberg á fjármálum Portúgalans.
Samkvæmt úttekt fjölmiðilsins er Ronaldo, sem er orðinn 40 ára, metinn á um 1,04 milljarða punda. Í útreikningunum var tekið tillit til skatta, fjárfestinga og verðmæta auglýsingasamninga á ferlinum þar á meðal ævilangs samnings hans við Nike sem einn og sér er metinn á 745 milljónir punda.
Tekjurnar frá Al-Nassr í Sádi Arabíu hafa skotið honum upp í toppinn yfir tekjuhæstu íþróttamenn heims, samkvæmt Bloomberg. Þar tekur hann fram úr erkifjanda sínum Lionel Messi, sem valdi að flytja til Inter Miami í Bandaríkjunum.
Ronaldo þénar um 300 pund á mínútu í Sádi Arabíu og fær um 167,9 milljónir punda á ári frá félaginu og á auk þess eignarhlut í Al-Nassr. Hann hefur einnig fjárfest í lúxuseignum og safnar dýrustu úrum heims, þar á meðal Franck Muller-úrinu sem er metið á rúmlega eina milljón punda.
Þrátt fyrir auðinn viðurkenndi Ronaldo á Globo Prestigio-verðlaunahátíðinni á þriðjudagskvöld að hjarta hans slái með landsliðinu:
„Ég hef verið í landsliðinu í 22 ár það segir allt sem segja þarf um ástríðuna mína fyrir treyjunni,“ segir Ronaldo.