Leikbann Markus Nakkim, leikmanns Vals, hefur verið afturkallað af KSÍ vegna mistaka sem gerð voru er hann var úrskurðaður í bannið.
Bannið fékk Norðmaðurinn fyrir að hafa fengið fjögur gul spjöld í Bestu deildinni, eins og reglur segja til um, en var ekki tekið inn í myndina að eitt spjald á að draga frá eftir að hefðbundnu 22 leikja móti er lokið og áður en deildinni er skipt upp.
Nakkim er því löglegur er Valur tekur á móti FH þann 19. október, en þar getur liðið endanlega tryggt Evrópusæti.
Yfirlýsing KSÍ
Með úrskurði aga- og úrskurðarnefndar frá 7. október sl. var Markus Lund Nakkim, leikmaður Vals, úrskurðaður í eins leiks bann vegna fjögurra áminninga.
Úrskurðurinn hefur verið leiðréttur og leikbann Markus Lund Nakkim afturkallað með vísan til þess að hann átti að fá eina áminningu dregna frá uppsöfnuðum áminningum að loknum 22 umferðum í samræmi við ákvæði gr. 13.1.1 reglugerðar KSÍ um aga- og úrskurðarmál.
Úrskurður aga- og úrskurðarnefndar hefur verið leiðréttur á heimasíðu KSÍ.