Andri Geir Gunnarsson, stjórnandi hlaðvarpsins Steve Dagskrá, hefur útskýrt af hverju bróðir hans, Grétar Snær Gunnarsson leikmaður FH reyndi að kýla leikmanns Víkings á sunnudag.
Mjög athyglisvert atvik átti sér stað seint í leiknum þegar Grétar Snær Gunnarsson leikmaður FH mætti inn í teiginn í hornspyrnu, mundaði Grétar hnefana og reyndi að kýla til leikmanns Víkings.
Grétar reyndi að kýla Tarik Ibrahimagic en skömmu áður hafði Grétar legið í vellinum eftir návígi við Matthías Vilhjálmsson, fyrrum leikmann FH.
Andri Geir reyndi að útskýra mál Grétars í nýjasta þætti sínum.
„Sáu þið athæfi Matta Villa þegar það voru tvær mínútur í það að hann yrði krýndur Íslandsmeistari? Hann gerðist sekur um líkamsárás, það er settur olnbogi út. Olnbogi eða útréttur framhandleggur og það er keyrt inn í leikmann þarna, hann heitir Grétar og hann liggur eftir óvígur. Matti fer nú og þykist vera góður drengur eftir að hafa framið glæp þarna, klappar honum á bakið,“ sagði Andri um fyrsta atvikið í leiknum.
Hann segir að Grétar hafi viljað svara fyrir sig í kjölfarið.
„Síðan kemur á atvik þegar einn átti að fá á kjammann en fékk það, hann hitti hann ekki. Þá var það þannig að Grétar sem hafði orðið fyrir þessari fólskulegu líkamsárás. Þið munið hvernig þetta var í Íslendingasögunum, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Menn eru að gantast með það að hann hafi villst á Tarik og Matta.“
Andri segir það hins vegar ekki tilviljun að Grétar hafi ætlað að buffa Tarik.
„Það var lítill fugl sem hvíslaði því að mér, ástæðan fyrir því að Tarik var valinn. Hann labbar framhjá honum og segir eitthvað get a pussy. Eitthvað þannig dæmi, þá fýkur aðeins í menn. Þá er hefnigirni, þetta er ekki alveg úr lausu lofti gripið.“