Eiður Smári Guðjohnsen hefði tekið upp símann sem landsliðsþjálfari og hringt í Jóhann Berg Guðmundsson til að láta vita að hann yrði ekki í landsliðshópnum. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, gerði það ekki.
Jóhann sem hefur spilað 99 landsleiki er ekki í hópnum að þessu sinni og var málið rætt í Dr. Football en mikið hefur verið rætt um þá ákvörðun Arnars að eiga ekki samskipti við Jóhann um valið.
„Þegar þú ert leikmaður eins og Jói Berg með alla þessa landsleiki og gera þetta, hefur hann rétt á því að vera pínu ósáttur?,“ sagði Hjörvar Hafliðason í Dr. Football.
„Ég held að það fari eftir þjálfaranum, hans vinnureglum. Þegar þú ert við það að spila þinn 100 landsleik, þá finnst mér í lagi að smella símtali á hann. Mér finnst Arnar ekki vera að gefa skít í hann, Jói hefur átt erfitt með meiðsli,“ sagði Eiður Smári.
Eiður sem var um tíma aðstoðarþjálfari landsliðsins segir Arnar í stöðu sem hann getur ekki unnið í. „Það voru allir sammála um að Arnar ætti að verða landsliðsþjálfari, svo eru allir þeir sömu sem gagnrýna hann sem þjálfara. Þetta er loose, loose.“
Auðunn Blöndal var gestur í þættinum og sagði þetta um málið „Ég dýrka Arnar, ég hefði hringt í Jóa.“
Eiður Smári tók undir það, hann hefði gefið Jóhanni símtal og útskýrt stöðuna. „Ég hefði hugsanlega gert það líka, þegar þú hefur spilað þetta marga landsleiki. Það er enginn vanvirðing í þessu, hann gerir þetta á sinn hátt og stendur og fellur með því.“