„Þetta er hörkulið sem við erum að mæta og verður eflaust hörkuleikur. En þetta snýst um að við náum okkar frammistöðu, ef við gerum það eigum við góðan séns,“ segir Ólafur Ingi Skúlason, nýr þjálfari Breiðabliks, fyrir leikinn gegn KuPS í Sambandsdeildinni á morgun.
Ólafur tók við Blikum á mánudag eftir brottrekstur Halldórs Árnasonar úr starfi. Síðustu dagar hafa verið þéttir en hann er himinnlifandi með upphafið á nýjum stað.
„Mér líst mjög vel á þetta. Það hefur verið mikið að gera og mikið að setja sig inn í. En teymið er búið að vera mjög gott svo það hefur verið auðvelt að detta inn í þetta, eins með klúbbinn sem er búinn að standa að þessu frábærlega. Ég er mjög þakklátur fyrir það,“ segir hann.
Þó tímabilið hafi ekki verið gott í Bestu deildinni segir Ólafur andann í leikmannahópi Breiðabliks upp á tíu.
„Ég upplifi hann mjög góðan, það er góð orka, annað væri óeðlilegt. Það eru risaleikir framundan og ég upplifi ekkert annað en að menn séu spenntir og klárir í leikinn á morgun. Ég finn að það er mikil samstaða, orka og menn eru klárir.“
Nánar er rætt við hann í spilaranum.