Bayern Munchen staðfesti í dag að Vincent Kompany hafi skrifað undir tveggja ára framlengingu við félagið og verður hann því samningsbundinn þýska risanum til júní 2029.
Kompany, sem er 39 ára gamall, tók við Bayern í maí 2024 og leiddi liðið til Þýskalandsmeistaratitils á síðustu leiktíð. Undir stjórn hans hefur Bayern unnið 49 af 67 leikjum í öllum keppnum.
„Ég er þakklátur fyrir traustið og vinnuumhverfið sem ég hef fengið hér frá fyrsta degi. Við erum á frábærri vegferð og þetta er aðeins byrjunin,“ segir Kompany.
Bayern hóf tímabilið á því að vinna þýska ofurbikarinn og er nú með fimm stiga forskot á toppi þýsku deildarinnar.
Kompany lék á ferlinum 360 leiki með Manchester City, vann fjóra enska meistaratitla og hóf þjálfaraferil sinn hjá Anderlecht áður en hann stýrði Burnley og síðar Bayern.