Blikar hafa ráðið fyrrum atvinnumanninn Emil Pálsson sem styrktarþjálfara elstu karlaflokka og kemur hann einnig inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla.
Miklar breytingar eru að eiga sér stað á bak við tjöldin hjá Blikum. Halldór Árnason var rekinn sem þjálfari í gær og er Ólafur Ingi Skúlason tekinn við. Fær hann nú Emil til liðs við sig.
Emil hefur eftir ferilinn getið sér gott orð í þjálfun hjá FH.
Tilkynning Breiðabliks
Emil Pálsson hefur verið ráðinn til Breiðabliks sem afreksþjálfari elstu karlaflokka félagsins. Hann kemur til með að hafa yfirumsjón með utanumhaldi, skipulagningu og þjálfun einstaklinga í elstu flokkum félagsins. Auk þess mun Emil vera hluti af þjálfarateymi meistaraflokks karla.
Emil átti farsælan feril sem leikmaður, þar sem hann lék m.a. sem atvinnumaður í Noregi í nokkur ár. Auk þess lék hann fyrir öll landslið Íslands. Eftir að ferlinum lauk hefur Emil sinnt þjálfun yngri flokka FH, auk þess að vera hluti af þjálfarateymi meistaraflokks karla.
Velkominn Emil!