Tobias Thomsen, framherji Breiðabliks, vill fara frá félaginu og halda heim til Danmerkur í vetur. Endurkoma til Hvidovre er ekki ólíkleg.
Tobias hefur skorað 14 mörk á tímabilinu fyrir Breiðablik. Hann hefur áður leikið með bæði Val og KR og hefur þannig byggt upp gott orðspor á Íslandi. Samningur hans við Breiðablik rennur út um áramótin, og Danmörk virðist næsta skref.
„Hugmyndin mín núna er að snúa aftur til Danmerkur. Það er það sem fjölskyldan vill, en í fótbolta getur allt gerst,“ segir Thomsen í viðtali við Tipsbladet.
Tímasetning á viðtali hans vekur athygli en Breiðablik á einn leik eftir í Bestu deildinni og á fimm leiki eftir í Sambansdeild Evrópu.
„Það er áhugi frá dönskum félögum, þó ekkert sé alveg ákveðið enn. Ég vona að ég hafi enn nægilega sterkt nafn til að spila að minnsta kosti í 1. deild.“
Thomsen segir að hann sé viss um að hann gæti enn staðið sig í Superligunni, en þar sem fjölskyldan vill búa í Kaupmannahöfn sé spennandi verkefni í 1. deild líklegast næsta skref.
„Hvidovre er klárlega möguleiki,“ segir Thomsen og bætir við: „Klúbburinn hefur breyst mikið, Martin Retov er frábær þjálfari og margt þar passar vel við mig.“