Fjölmiðlamaðurinn Stefán Einar Stefánsson á Morgunblaðinu var mættur á landsleik Íslands og Frakklands í undankeppni HM á dögunum. Var hann örlítið svekktur með okkar stuðningsmenn í lok leiks.
Strákarnir okkar gerðu 2-2 jafntefli við ógnarsterkt lið Frakka í Laugardalnum fyrir viku og héldu vonum sínum um að fara á HM vestan hafs næsta sumar í leiðinni vel á floti. Það voru þó Frakkar í stuðningsmannahólfi gestanna sem virtust njóta sín betur eftir leik að sögn Stefáns.
„Ég grét það dálítið, af því við náðum ótrúlegum úrslitum og Frakkarnir auðvitað svekktir því þetta er lið sem á að vinna Ísland alla daga, en örfáir stuðningsmenn þeirra, 150-200, héldu áfram að fagna og syngja og voru áfram syngjandi og trallandi þegar síðasta fólkið var að labba út úr íslensku boxunum,“ sagði Stefán Einar í Þjóðmálum fyrir helgi.
„Mér finnst að þegar Ísland nái 2-2 jafntefli eigi bara að slá í góðan rokkkonsert og sturta bjór í liðið,“ sagði hann enn fremur.
Þess má geta að Ísland mætir Aserbaísjan og Úkraínu í næsta mánuði og sigur í þeim leikjum mun duga til að komast í umspil um sæti á HM.