Fyrrverandi markvörður Manchester United Peter Schmeichel segir félagið hafa gert stór mistök með því að láta Scott McTominay og Rasmus Hojlund fara frá félaginu og að báðir séu nú að sýna sitt rétta andlit hjá Napoli.
McTominay gekk til liðs við ítölsku meistarana sumarið 2024 og var síðar valinn leikmaður ársins í Serie A eftir að hafa hjálpað Napoli að vinna titilinn.
Á þessu tímabili hefur hann byrjað vel, en Hojlund, sem fór til Napoli á láni í sumar með möguleika á kaupum, hefur skorað fjögur mörk í sex leikjum. Það eru jafnmörk mörk og hann skoraði alla síðustu leiktíð í ensku úrvalsdeildinni með United.
„Þú ert með stjóra, íþróttastjóra, tæknistjóra og yfirmann leikmannakaupa. Það eru allt of margir sem sjá um að taka ákvarðanir um leikmannamál,“ sagði Schmeichel.
„Að kaupa Benjamin Sesko var skrýtið þegar við vorum með Hojlund, sem fékk aldrei rétta þjónustu. Nú sjáum við hvað hann getur gert með leikmönnum eins og Kevin De Bruyne og McTominay við hlið sér, hann er að skora reglulega.“
Schmeichel telur Hojlund alltaf hafa haft gæði til að verða alvöru markaskorari fyrir United.
„Ég hef sagt þetta í tvö og hálft ár, Hojlund er 25 marka framherji, en hann þarf þjónustu. Við létum hann fara vegna tölfræðinnar á síðasta tímabili og sóttum Sesko í staðinn, á sama tíma og við hefðum þurft að fjárfesta í varnartengilið eða markverði.“
Schmeichel telur það einnig óskiljanlegt að McTominay hafi verið seldur.
„Hann er svo mikill Manchester United-maður. Hann var í raun fórnarlamb eigin fjölhæfni, þjálfarar vissu ekki hvar þeir ættu að spila honum. En hann var alltaf tilbúinn, alltaf að vinna fyrir liðið.“