Gareth Bale, fyrrverandi leikmaður Tottenham og Real Madrid, hefur nú opnað sig um ótta sinn við gjaldþrot eftir að ferlinum lauk.
Bale, sem er 36 ára, lagði skóna á hilluna eftir HM í Katar árið 2022 og var á sínum tíma hæst launaði leikmaður heims þegar hann skrifaði undir sex ára samning við Real Madrid árið 2016, metinn á 150 milljónir punda.
Samkvæmt Wales Online er hann þó enn metinn á um 120 milljónir punda í eignir.
Þrátt fyrir miklar tekjur viðurkennir hann að hann hafi alltaf verið varkár í fjármálum. „Það var eitt sem hræddi mig alltaf,“ sagði Bale í viðtali við Front Office Sports.
„Maður les sögur af íþróttamönnum sem hætta og fara á hausinn. Þeir kunna ekki að stjórna peningum sínum og lifa lúxuslífi.“
Bale, sem á þrjú börn með æskuástinni sinni Emmu Rhys-Jones, sagðist alltaf hafa hugsað fram í tímann. „Ég reyndi að lifa ekki í óhófi. Ég hugsaði alltaf um hvernig lífið yrði eftir fótboltann, þegar launin hætta að koma inn. Hvernig breytir maður þá lífsstílnum?“
Hann segir að lausnin hafi verið að fjárfesta snemma. „Ég hugsaði um það eins og byggingu með stoðum, ef ein stoð félli, myndi húsið ekki hrynja. Ég vildi hafa fjárfestingar mínar fjölbreyttar svo ég væri aldrei í hættu.“