

Landsliðsþjálfari Noregs, Ståle Solbakken, lét í sér heyra eftir 1–1 jafntefli liðsins gegn Nýja-Sjálandi og gagnrýndi einn af sínum eigin leikmönnum harðlega, Oscar Bobb leikmann Manchester City.
Solbakken sparaði ekki orðin eftir leikinn og sagði frammistöðu hins 22 ára Bobb vera þá slökustu sem hann hefur sýnt fyrir landsliðið. Hann gagnrýndi sérstaklega ákvarðanatöku leikmannsins og vinnusemi á vellinum, sem hann sagði ekki standast kröfur liðsins.
„Hann var mjög slakur í fyrri hálfleik,“ sagði Solbakken við norska miðilinn VG eftir leikinn.
„Hann vantaði allt. Hann tekur of langan tíma með boltann, staðsetur sig undarlega og pressar illa. Það er skrýtið, því hann hefur gert þetta mjög vel á æfingum.“
Bobb hafði heillað í 5–0 sigri Noregs á Ísrael nokkrum dögum fyrr, þar sem hann lék á hægri kanti og spilaði vel með Erling Haaland. Solbakken ákvað hins vegar að færa hann inn á miðjuna gegn Nýja-Sjálandi, ákvörðun sem reyndist ekki vel.
„Taktískt sáum við ekki það sem við höfðum æft. Hann er ungur og lærir, en þetta var ekki góður dagur,“ bætti Solbakken við.