Rangers virðast vera á leiðinni að ráða Ástralann Kevin Muscat sem nýjan knattspyrnustjóra liðsins. Þetta herma heimildir BBC.
Rangers létu Russell Martin fara fyrr í mánuðinum eftir afar slæma byrjun á tímabilinu í skosku úrvalsdeildinni. Eftir 1-1 jafntefli gegn Falkirk situr liðið í áttunda sæti deildarinnar, ellefu stigum á eftir toppliði Hearts.
Eftir brotthvarf Martin var vonast til þess að Steven Gerrard, fyrrverandi stjóri liðsins, myndi snúa aftur til Glasgow. Þrátt fyrir jákvæðar viðræður ákvað Gerrard þó að gefa ekki kost á sér í starfið.
BBC segir nú að Muscat, sm er fyrrverandi leikmaður Rangers, sé líklegastur til að taka við liðinu. Muscat, sem er 52 ára, stýrir um þessar mundir kínverska félaginu Shanghai Port, en hann hefur áður þjálfað Melbourne Victory, Sint-Truiden og Yokohama F. Marinos.
Fram kemur að viðræður hafi farið fram milli Rangers og Muscat, en ef samkomulag næst gæti hann ekki tekið við liðinu fyrr en eftir að kínverska tímabilinu lýkur 22. nóvember.
Muscat lék sem varnarmaður á sínum ferli og var þekktur fyrir að vera ansi harður í horn að taka. Hann var á sínum tíma kallaður hataðasti maður fótboltans eftir að hafa fengið 123 gul og 12 rauð spjöld á ferlinum.
Á þjálfaraferlinum hefur hann hins vegar getið sér gott orð og náð miklum árangri. Hann vann japönsku deildina árið 2022 með Yokohama og tvisvar sinnum áströlsku deildina með Melbourne.
Á síðasta tímabili varð hann meistari í þriðja landinu þegar hann leiddi Shanghai Port til sigurs í kínversku deildinni.