Fyrrverandi stjóri Manchester United Ole Gunnar Solskjær gæti verið á leið aftur í stjórastarf en hann er nú orðaður við stórlið Rangers í Skotlandi.
Það eru liðin nær fjögur ár síðan United ákvað að láta Solskjær fara frá félaginu. Hann tók sér þá langt hlé frá þjálfun áður en hann tók við tyrkneska félaginu Besiktas í janúar síðastliðnum.
Norðmaðurinn byrjaði vel í Tyrklandi, með átta sigra og eitt jafntefli í fyrstu tólf leikjunum, en eftir að liðið féll úr Sambandsdeildinni gegn Lausanne í umspilinu var honum sagt upp í byrjun þessa tímabils.
Nú er Solskjær sagður hafa fundað með forráðamönnum Rangers og er hann samkvæmt veðbönkum með líklegri mönnum til að fá starfið.
Rangers leitar að nýjum stjóra eftir að Russell Martin var látinn fara. Talið var að Steven Gerrard myndi snúa aftur, en hann á að hafa hafnað tilboði félagsins.