Russell Martin, sem var rekinn sem knattspyrnustjóri Rangers á sunnudagskvöld, sást njóta sín við Loch Lomond í Skotlandi daginn eftir og virtist ekkert sérstaklega stressaður yfir stöðunni.
Martin, 39 ára Englendingur og fyrrum stjóri Southampton, var látinn taka pokann sinn eftir aðeins sjö deildarleiki við stjórnvölinn í Glasgow. Tíðindin komu ekki á óvart þar sem hann hafði verið afar óvinsæll meðal stuðningsmanna Rangers frá fyrsta degi.
Eftir síðasta leik sinn við stjórnvölinn, gegn Falkirk á sunnudag, var reiðin svo mikil í stúkunni að lögregla þurfti að fylgja Martin frá leikvanginum til að tryggja öryggi hans. Skömmu síðar var staðfest að hann hefði verið rekinn.
Daginn eftir sást Martin þó slaka á í góðum félagsskap fyrirsætunnar Lucy Pinder, kærustu hans, við vatnið fræga Loch Lomond um 50 km frá Glasgow. Að sögn vitna virtist Martin í fínu formi og hló og naut lífsins í köldum ferskvatninu.
Margir heimamenn sögðust hissa á að sjá parið í svona góðum gír, svona stuttu eftir að Martin missti starfið hjá einu stærsta félagi Skotlands.