Barcelona hefur ákveðið að reyna að halda Marcus Rashford þegar lánssamningur hans rennur út í lok tímabilsins.
Enski sóknarmaðurinn gekk til liðs við spænska stórliðið á láni frá Manchester United síðastliðið sumar og hefur byrjað vel hjá nýju félaginu, er með þrjú mörk og fimm stoðsendingar í fyrstu tíu leikjunum.
Samkvæmt fréttum á Spáni hyggst Barcelona virkja kaupákvæði í lánssamningnum, sem hljóðar upp á 26 milljónir punda. Hins vegar er ljóst að fjárhagsstaða félagsins gæti gert þeim erfitt fyrir.
Vegna fjárhagsreglna La Liga þarf félagið að halda launakostnaði innan ákveðinna marka og gæti því þurft að bjóða Rashford lægri laun en þau 325 þúsund pund á viku sem hann fær hjá Manchester United.
Að sama skapi gæti Barcelona reynt að semja beint við United um lægra kaupverð eða jafnvel framlengja lánssamninginn um eitt ár í viðbót, á meðan unnið er að því að laga fjárhaginn.
Rashford á ekki afturkvæmt á Old Trafford að svo stöddu þar sem samband hans við Ruben Amorim, stjóra United, er talið vera mjög stirt eftir deilur þeirra á síðasta tímabili.
Framherjinn lék fyrri hluta ársins á láni hjá Aston Villa áður en hann fór til Barcelona í sumar.
Rashford, sem er samningsbundinn United til sumarsins 2028, hefur með frammistöðu sinni í Katalóníu komið sér aftur inn í enska landsliðshópinn.