Gary Neville hefur verið kallaður landráðamaður af reiðum stuðningsmönnum eftir umdeild ummæli þar sem hann gagnrýndi reiða miðaldra hvíta karlmenn sem flagga breska fánanum á neikvæðan hátt að hans mati.
Ummæli Neville komu í kjölfar hryðjuverkaárásar á samkunduhús gyðinga í Manchester, þar sem tveir tilbiðjendur voru drepnir af sýrlenskum árásarmanni. Neville sagði í myndbandi á LinkedIn.
„Við erum að verða snúin hvert gegn öðru. Þessi klofningur sem er að myndast er viðbjóðslegur og hann kemur að mestu frá reiðum miðaldra hvítum körlum sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að gera,“ sagði Neville.
Á þriðjudagskvöld komu stuðningsmenn saman fyrir utan Hotel Football, hótel Neville sem stendur við Old Trafford, og við heimavöll Salford City liðsins sem hann á í sameiningu með David Beckham til að mótmæla. Þar héldu menn á borða þar sem stóð.
„Gary Neville. Landráðaskrímsli. Sjálfsmark, Nev.“
Aðrir voru staðnir að því að binda breska fánann við ljósastaura í nágrenninu en Neville hafði áður fyrirskipað að slíkur fáni yrði tekinn niður á byggingarsvæði í eigu hans.
Borðinn sást síðar aftur á heimavelli Salford í 3-1 sigri gegn Stockport County.