Tómas Steindórsson, útvarpsmaður með meiru, fór yfir sviðið með Helga Fannari Sigurðssyni í Íþróttavikunni á 433.is fyrir helgi.
Nýtt fyrirkomulag í Meistaradeildinni hefur vakið lukku, en það var tekið í notkun í fyrra. Í stað riðlakeppni eru 36 lið í einni deild, efstu 8 fara beint í 16-liða úrslit en sæti 9-24 í umspil um að fylgja þangað. Helgi vill breyta þessu aðeins.
„Mér finnst þetta fyrirkomulag vissulega skemmtilegra en það gamla en ég vil bara að efstu 16 fari áfram, ekki 24. Ég held að það yrði miklu meira spennandi, þú mættir minna við því að misstíga þig,“ sagði hann í þættinum.
Tómas segir ljóst að þetta sé hannað fyrir stóru liðin. „Það er svolítið verið að tryggja að stærstu liðin fari áfram með þessu fyrirkomulagi, þau fá auka séns.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.